Kálfsdalur - Nesdalur - Siglunes

Tími: 10 - 14 klst.
Vegalengd: um 20 km.

Gengið út Staðarhólsströnd framhjá rústum Evangersverksmiðjunnar. Upp af Selvíkurvita í austri opnast lítill dalur, Kálfsdalur sem leiðin liggur um, með Kálfsvatni og austur yfir Kálfsskarð (450 m). Þá er komið ofan í Nesdal (Reyðarárdal 6 km).

Reyðará (3) er eyðibýli norður á sjávarbökkum. Sagan segir að í fyrndinni hafi Reyðarárbóndi komið af sjó og fundið bæinn brotinn og konu sína og börn látin og limlest eftir hvítabjörn. Rann á bónda æði, elti slóð dýrsins og fann það austur í Hesti (Hestfjalli 586 m). Bangsi forðaði sér og slapp naumlega undan broddstaf bónda með því að stinga sér niður snarbratta gjá sem síðan heitir Bangsagjá. Lengst af var Reyðará í eyði en um 1940 hófu ung hjón þar nútímalegan búskap með góðum húsakosti og miklum jarðabótum. En hinn síbreytilegi "nútími" bauð ekki upp á langvarandi sælu þessa duglega og bjartsýna fólks þarna. Fjörutíu ár! sem var þó lengra en á sumum öðrum afskekktum stöðum á landi okkar.

Nú liggur leiðin til vesturs undir bröttum hlíðum Nesnúps (595 m).Þar verður fyrir Siglunesviti sem byggður var 1908. Þar skammt frá má greina ummerki mikilla búða amerísks herliðs sem rak þarna radarstöð í seinni heimstyrjöldinni 1943-1945. Miklu var kostað til að fylgjast með þýskum óvinaflugvélum en fátt bar til tíðinda. Eftir stendur amerískur arinn á íslenskum berangri!

Þar með erum við komin á Siglunes þann merka stað. Á seinni hluta 19. aldar bjuggu á Siglunesi um 50 manns, árið 1955 var búið á 6 býlum en síðustu ábúendur fluttu þaðan til Siglufjarðar 1988. Nokkrar deilur höfðu þá staðið um skeið á Siglufirði um hvort leyfa ætti vegargerð yfir hinar illræmdu Nesskriður svo skreppa mætti þangað á jafn skjótan hátt og séra Ásmundur Gunnlaugsson á Hvanneyri (1820-25) gerði á hesti sínum Hreindýrs-Rauð.

Fót nam hvessa fílefldur,
frægðar essi reið ég,
nógu hress yfir Nesskriður,
nú af þessu veit margur.

Þetta orti Ásmundur eftir voðareið sína á hinum undarlega hesti sem var mjög mjósleginn, tagl og fax nær ekkert, sterturinn sem stuttur dindill, fætur háir og grannvaxnir, hófar klofnir líkir klaufum, en vöðvar og sinar hart og stælt sem tré.Ekki verður séð að Siglunesskriður (5) verði gerðar bílfærar í bráð og eru því jafnerfiðar og hættulegar yfirferðar og fyrrum.

Okkur eru nokkrar leiðir færar frá Siglunesi. Sú þægilegasta er sjóleiðin. Önnur er sami vegur til baka og sú þriðja og líklegast sú varasamasta er um Nesskriður (5). Gengnar eru tæpar kindagötur ofan sjávarkletta. Og nú þarf góða skó og fiman fót!

Mjög óáreiðanleg saga segir að fimmtíu manns hafi farist í snjóflóði nyrst í Nesskriðum á leið til kirkju á sjálfri jólanótt árið 1613. Þótt þessi sögn sé allvíða skráð nú í seinni tíð þá finnast engar haldbærar samtímaheimildir um atburðinn og því talinn uppspuni einn, kannski uppdiktuð sem áróður fyrir því að flytja kirkjuna frá Siglunesi inn í Siglufjörð.

Þegar komið er á Helluhrygg syðst í Nesskriðum verður leiðin aftur greiðfærari. Í Kambalágum neðan Kálfsdals lokast gönguhringur okkar. Þó eru enn a.m.k. 3 km. ófarnir eftir Staðarhólsströnd áður en þessari gönguleið lýkur.